Sigrún Huld Hrafnsdóttir
2014

 
 

Sigrún Huld Hrafnsdóttir

Sigrún Huld Hrafnsdóttir var valin listamaður hátíðarinnar árið 2014.

Sigrún Huld vinnur að mestu með málverk og teikningar sem hún vinnur af mikilli natni. Sigrún fer í gegnum tímabil í verkum sínum þar sem hún tekur fyrir ákveðin viðfangsefni, svo sem fugla, fiska eða hús. Listaferill Sigrúnar spannar áratugi og hefur hún tekið þátt í fjölda einkasýninga og samsýninga, m.a. í Listasafni ASÍ, á Kjarvalsstöðum og Týsgallerý.

Texti úr sýningarskrá hátíðarinnar árið 2014:
Öll eigum við okkur drauma og þrár og þegar við náum markmiðum sem við setjum okkur verður uppskeran oft ennþá ríkulegri en við gerðum okkur vonur um. Með því að tjá og skapa auðgum við líf okkar og umhverfi, bæði tilfinningalega og menningarlega, og allir eiga kost á að njóta góðs af.

Fyrirmyndir eru mikilvægar, ekki síst á mótunarárum ungs fólks. Listakonan Sigrún Huld sem heiðruð er í dag sem listamaður hátíðarinnar List án landamæra 2014 er verðugur fulltrúi þeirra sem hafa skarað fram úr sem fyrirmynd annarra. Hún hefur gert það á tveimur gerólíkum sviðum, sem afrekskona í íþróttum og sem myndlistarkona. Myndheimur Sigrúnar endurspeglar fegurð og kyrrð en umfram allt hið einfalda og einlæga í tilverunni.

Oft er sagt að öll einlæg list sé góð list en þar eru hugmyndarfluginu engin takmörk sett og allt getur gerst, líkt og í ævintýrum. Í myndum listakonunnar, sem hún vinnur með kröftugri teikningu og sterkum en vel samræmdum litum, birtist okkur óvæntur heimur. Manneskjan er þar að mestu fjarverandi en furðudýr og fuglar eiga stefnumót og framsækinn arkitektúr rís upp úr blómstrandi engjum draumalandsins

- Hrafnhildur Schram, listfræðingur

 

 

Brot af verkum Sigrúnar