TILGANGUR HÁTÍÐAR

Tilgangur List án landamæra er að auka menningarlegt jafnrétti og fjölbreytni með því að skapa faglegan vettvang og tækifæri fyrir fatlaða listamenn.

 
DSCF7679.jpg

Um hátíðina

List án landamæra er listahátíð sem leggur áherslu á list fatlaðs fólks. Hátíðin var fyrst haldin árið 2003 á Evrópuári fatlaðra og hefur verið haldin árlega síðan. Hátíðin sýnir öll listform og stendur fyrir samstarfi á milli listamanna. Hátíðin er eini vettvangurinn á Íslandi sem leggur alfarið áherslu á listsköpun fatlaðs listafólks og hefur skapað sér sérstöðu innan menningarlífsins á Íslandi. Æ fleiri verða meðvitaðir um gildi hátíðarinnar í samfélaginu. Með því að skapa vettvang skapast tækifæri og leiðir opnast, jafnvel inn á nýjar brautir. Með því að leiða saman ólíka hópa og einstaklinga opnast alltaf fleiri og fleiri dyr og tækifæri. Sýnileiki ólíkra einstaklinga er mikilvægur, bæði í samfélaginu og í samfélagsumræðunni. Sýnileiki hefur bein áhrif á jafnrétti á öllum sviðum.

Hátíðin hefur stuðlað að samstarfi á milli ólíkra hópa og m.a. verið í samstarfi við listasöfn, starfandi listafólk, leikhópa og tónlistarfólk. Hátíðin hefur einnig stuðlað að umræðu um ímynd fatlaðra listamanna í listum og list fatlaðra m.a. í samvinnu við Háskóla Íslands, Þjóðminjasafnið og Norræna húsið. List án landamæra leggur áherslu á að list fatlaðs listafólks sé metin til jafns innan listheimsins og list ófatlaðs listafólks.

List án landamæra hlaut Múrbrjót Þroskahjálpar árið 2009 og var tilnefnd til Hvatningaverðlauna ÖBÍ árið 2011. Árið 2012 fékk List án landamæra Mannréttindaverðlaun Reykjavíkurborgar.

 

SKIPULAG HÁTÍÐAR

 

Hátíðin er haldin á afmörkuðum tíma að hausti. Á dagskrá hátíðarinnar  eru allar listgreinar.

Dagskrá hátíðarinnar er tvíþætt. Annarsvegar er um að ræða opinbera dagskrá sem skipulögð er af listrænum stjórnanda List án landamæra og hins vegar utan dagskrár viðburði. 

Listrænn stjórnandi velur viðburði og verk inná opinbera dagskrá hátíðarinnar og hefur þar listræn markmið í forgrunni. Á opinberri dagskrá hátíðarinnar er því listræn stjórnun, en allir geta skipulagt viðburði á dagskrá hátíðarinnar í svo kallaðri "off-venue" dagskrá. Opinbera dagskráin er haldin á einum og sama stað og þar eru einnig málþing, námskeið o.fl. Utan-dagskrár, eða “off-venue” sér hver og einn skipuleggjandi alfarið um fjármögnun og skipulag á sínum viðburði, en viðburðurinn er hluti af auglýstri dagskrá hátíðarinnar. 

Árlega velur hátíðin sér listamann ársins og getur hver sem er tilnefnt listamann. Listamaðurinn getur komið úr hvaða listgrein sem er og munu verk eftir listamannin fá sértakan heiðursess það árið og verða einnig notuð í kynningarefni um hátíðina.

Verk af sýningu Atla Más Indriðasonar, listamanns hátíðarinnar árið 2019

Verk af sýningu Atla Más Indriðasonar, listamanns hátíðarinnar árið 2019

 

LIST ÁN LANDAMÆRA Á LANDINU ÖLLU

List án landamæra er hátíð þess mögulega, hátíð margbreytni og tækifæra fyrir alla sama hvar á landinu þeir eru staddir. Hátíðin hefur undanfarin ár verið haldin um land allt og hafa þá verið verkefnastjórar á Austurlandi, Norðurlandi, Reykjanesi og Vestfjörðum sem halda utanum dagskrá í sínum landshluta. Hver sem er getur staðið fyrir List án landamæra í sinni heimabyggð. Framkvæmdarstjóri og listrænn stjórnandi halda utanum dagskrá hátíðarinnar á höfuðborgarsvæðinu en alla jafna eru listamenn af landinu öllu sem taka þátt í þeirri dagskrá. Ef þú hefur áhuga á að halda viðburð í nafni List án landamæra í þinni heimabyggð eða vilt taka þátt í List án landamæra þá skaltu endilega senda okkur póst.  

 
Copy+of+u%CC%81r+innsetningunni+Samtal+um+vo%CC%88lundarhu%CC%81s_2012.jpg
 

Alþjóðasamstarf

List án landamæra er meðlimur í EOA - European Outsider Art Association og einn af stofnmeðlimum NOA - Nordic Outsider Art. Alþjóðlegt samstarf er mjög mikilvægt, ekki bara fyrir hátíðin sjálfa, heldur einnig fyrir listasenuna og listamenn hérlendis. Mikilvægur hluti listræns sköpunarferlis er að sjá list eftir aðra listamenn og kynna sér það sem er í gangi í öðrum löndum. Einnig er mikilvægt fyrir íslenska listamenn að fá tækifæri til þess að taka þátt í verkefnum og sýningum erlendis. Því hefur List án landamæra lagt ríka áherslu á að taka bæði þátt í alþjóðlegum samstarfsverkefnum og standa fyrir þeim.

Undanfarin ár hefur hátíðin tekið þátt í fleiri og fleiri alþjóðlegum samstarfsverkefnum. Má þar m.a. nefna norræna verkefnið Out by Art sem hafði það að tilgangi að auka þátttöku fatlaðra listamanna í videolist. Videoverkin sem unnin voru í verkefninu voru frumsýnd á Nýlistasafninu í Svíþjóð vorið 2018 og hafa síðan þá verið sýnd víða um heim. Hátíðin tók einnig þátt í verkefninu Open Minds Network og er samstarfsaðili í verkefninu. Hátíðin hefur einnig boðið erlendum listamönnum og hópum að sýna á hátíðinni og má þar nefna Share Music frá Svíþjóð, finnska danshópinn Kaaos Kompany sem sérhæfir sig í samstarfi á milli fatlaðra og ófatlaðra dansara og finnska ljósmyndahópinn Pekka Elomaa & Lyhti Ensemble.


 
Kaaos Kompany sýndi verk sitt Float á List án landamæra árið 2018

Kaaos Kompany sýndi verk sitt Float á List án landamæra árið 2018

 

 MARKMIÐ HÁTÍÐAR

Veturinn 2018 til 2019 fór stjórn hátíðarinnar í stefnumótunarvinnu. Stefnumótunarvinnan var unnin í samtali við listamenn, notendur og áhorfendur hátíðarinnar. 

MARKMIÐ LIST ÁN LANDAMÆRA 2019 - 2021 ERU:

 • Að skapa faglegan vettvang fyrir fatlaða listamenn og stuðla að sýningum í viðurkenndum sýningarrýmum. 

 • Að stuðla að samstarfi á milli ólíkra hópa og einstaklinga í gegnum listsköpun.

 • Að vera vettvangur fyrir allar listir.

 • Að vera einstök og lifandi hátíð.

 • Að hafa listrænt stýrða dagskrá sem haldin er á einum stað sem getur hýst alla viðburði sem skipulagðir eru af listrænum stjórnanda.

 • Að bjóða öllum að skrá sína eigin viðburði á dagskrá hátíðar, svokallaða off-venue dagskrá, og geta þannig boðið öllum að taka þátt.

 • Að fjölga starfsmönnum hátíðarinnar til að dreifa álagi og bæta hag hennar.

 • Að efla norrænt samstarf og standa fyrir fleiri norrænum sýningarverkefnum.

 • Að auka samtal á milli landshluta og stuðla að þátttöku fatlaðs fólks í listviðburðum utan höfuðborgarsvæðisins

 • Að auka sýnileika hátíðarinnar og fatlaðs listafólks í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum.

 • Að auka samtal við stjórnendur og skipuleggjendur í listheiminum.

 • Að auka fjármagn til hátíðarinnar.

Stjórn List án landamæra, listrænn stjórnandi og framkvæmdarstjóri leggja metnað í að ná öllum þessum markmiðum til þess að hátíðin geti vaxið og dafnað enn frekar. 

 
 
 

STARFSMENN LIST ÁN LANDAMÆRA

 
ÉGDEY_47.jpg

Ragnheiður Maísól Sturludóttir

Listrænn stjórnandi og framkvæmdarstjóri
maisol@listin.is

 
%C3%A9g+svarthv.jpg
 

Signý Leifsdóttir

Verkefnastjóri
signy@listin.is

 
DSCF7685.JPG

Stjórn og PRAKTÍSkT SKIPULAG

Aðildarfélög í stjórn hátíðarinnar eru: Fjölmennt, Átak, Hitt húsið, Landssamtökin Þroskahjálp, Öryrkjabandalag Íslands og Bandalag íslenskra listamanna. 

Fulltrúar þessara félaga í stjórn hátíðarinnar 2018 - 2019 eru:

 • Margrét Norðdahl, Þroskahjálp - formaður stjórnar

 • Steinunn Guðný Ágústsdóttir, Fjölmennt

 • Ágústa Erla Þorvaldsdóttir, Átak – félag fólks með þroskahömlun

 • Guðríður Ólafs- og Ólafíudóttir, Öryrkjabandalag Íslands

 • Margrét Pétursdóttir, Bandalag íslenskra listamanna.

 • Ásta Sóley Haraldsdóttir, Hitt húsið

Friðrik Sigurðsson er verndari og einn af stofnendum hátíðarinnar.

List án landamæra 2019 er styrkt af Hátíðarsjóði Reykjavíkurborgar, Mennta- og menningarmálaráðuneytinu, Samfélagssjóði Landsvirkjunar og Öryrkjabandalagi Íslands.