Karl Guðmundsson
2015

 
 

Karl inní einu verka sinna

Karl Guðmundsson var valinn listamaður hátíðarinnar árið 2015.

Karl, sem er allajafna kallaður Kalli, býr og starfar á Akureyri. Verk hans eru málverk þar sem litir og form spila saman. Karl vinnur verk sín oft í samstarfi við listakonuna Rósu Kristínu Júlíusdóttur. Samstarf þeirra hófst sem samspil nemanda og kennara en þróaðist markvisst yfir í samvinnu tveggja vina, félaga í listinni. Þau hafa haldið margar sameiginlegar listsýningar undanfarin ár.

Texti úr sýningarskrá hátíðarinnar árið 2015:

„Ég sé línurnar mínar dansa! Þær svífa yfir hafflötin og teygja sig til himins“ - Kalli, 2007

Stórt klæði er strekkt á vegginn í vinnustofu Kalla. Japanskur pensill festur á bambusprik er settur í handarspelkuna sem Kalli hefur hannað. En Kalli vill tala:

„Það er heilmikill dans í línunum mínum... að mála svona er svolítið eins og að tjútta” - Úr nótum Kalla, 2007


Við höldum áfram að mála og hugurinn leitar aftur til þess tíma er Kalli kom fyrst í myndlistaskólann, þá fimm ára gamall. Við höfum sannarlega komist áleiðis í sjónrænu samtali okkar!

Línurnar hans Kalla, eins og hann kallar þær, hafa alltaf verið kjarninn í verkum hans. Þær hafa breyst með tímanum líkt og verkin hans. Þó að hreyfing handarinnar ráði um margt hvernig þær verða, er það ekki síður hugur Kalla sem er að verki því ólíkar línur í umhverfinu, náttúrunni, eru í stöðugri athugun hjá honum. Þær eru honum stöðug uppspretta hugsunar. Fyrir Kalla eru línurnar hans tjáningarmáti á veröldina eins og hún getur birst honum. Ég hef séð gleði hans eftir langa og stranga teiknitíma þegar hann uppgötvar tengslin milli dökkra lína í snjónum í Hlíðarfjalli og þeirra lína sem hann var að enda við að setja á pappírinn eða strigann. Gullin strá sem leggjast undir snjóinn að hausti geta birst sem gylltar línur á striganum hans að vori.

Fagurfræðin í myndlist Kalla, að leika sér að formrænum eigindum myndlistarinnar, hefur alltaf verið honum mikilvæg. Þegar hann er spurður hvað hann vilji segja með myndunum sínum svarar hann iðulega að hann vilji að fólki líði vel þegar það upplifir myndirnar hans

Að gera tilraunir með form, liti og nýstárlegan efnivið hefur alla tíð einkennt myndsköpun Kalla. Undanfarin ár hafa þessar tilraunir leitt af sér innsetningar þar sem áhorfendur verða gjarnan þátttakendur í gegnum samskipti við listaverkið. Þessi verk hafa boðið gestum sýninganna að stíga inn í verkið á hljóðlátan hátt. Vissulega var hægt að upplifa verkin eingöngu sjónrænt, en reynslan eða upplifunin breytist þegar áhorfandinn kýs að stíga inn í verkin.

Birtingarmynd eða sjónsköpun verksins umbreytist og skapar óteljandi upplifanir, en valið er auðvitað þátttakendanna.

„Hjá öllum vakir þráin að birta öðrum hug sinn... ” sagði hinn mæti fræðimaður Guðmundur Finnbogason snemma á síðustu öld. Myndsköpun Kalla gefur honum rödd sem heyrist og gerir hann sýnilegan. Þessi rödd er þýðingarmikil og eflandi máttur í lífi hans.

- Rósa Kristín Júlíusdóttir

 

 

Brot af verkum Kalla