listamaður listar án landamæra 2020

Instagram swipe-annað_001LAL_Tilkynning3.png

Helga Matthildur viðarsdóttir

Frá stofnun Listar án landamæra hefur hátíðin valið einn framúrskarandi listamann úr röðum fatlaðra listamanna sem listamann hátíðarinnar

Helga Matthildur Viðarsdóttir varð fyrir valinu sem listamaður hátíðarinnar 2020.
Helga Matthildur er fædd í Reykjavík árið 1971 og býr í Reykjavík. Hún hefur unnið að list sinni í nokkur ár undir handleiðslu listkennara hjá Styrktarfélaginu Ás og sótt þar vatnslitanámskeið og námskeið í teikningu.

Fyrsta einkasýning Helgu Matthildar var opnuð í Listasal Mosfellsbæjar í október 2020 og var sýningin á vegum Listar án landamæra. Þar sýndi hún alls 77 teikningar og málverk, sem öll eru gerð á árunum 2019 og 2020.

Helga Matthildur vinnur beint á pappírinn án þess að gera vinnuskissur áður og er mikil festa og orka í teiknistíl hennar. Myndefnið eru gjarnan portrett í nokkurskonar götulista-stíl og er myndflöturinn allur nýttur og teikningin þétt. Vatnslitamyndir Helgu Matthildar eru afar litríkar og bera vott um mikið næmi hennar fyrir litum og litasamsetningum.

Helga Matthildur var valin sem listamaður hátíðarinnar 2020 úr 16 innsendum tillögum. Í valnefnd sátu Birta Guðjónsdóttir-listrænn stjórnandi Listar án landamæra 2020, Atli Már Indriðason-listamaður hátíðarinnar 2019, Eggert Pétursson myndlistarmaður-fyrrum sýnandi í List án landamæra, Steinunn Sigurðardóttir fatahönnuður-fulltrúi Hönnunarmiðstöðvar, Kristinn Guðbrandur Harðarson myndlistarmaður-fulltrúi Bandalags íslenskra listamanna.


Hér má horfa og hlusta á umfjöllun um list Helgu Matthildar í sjónvarpsþættinum Með okkar augum á RÚV frá 16. september 2020: https://www.ruv.is/sjonvarp/spila/med-okkar-augum/29394/8oaap6


Ljósmyndina af Helgu Matthildi tók Guðmundur Skúli Viðarson ljósmyndari, bróðir hennar.

 
 

NOKKUR AF LISTAVERKUM HELGU MATTHILDAR