TJARNARLEIKHÓPUR
Listhópur hátíðarinnar 2025
Félagar í Tjarnarleikhópi hafa flest starfað saman að leiklist frá því þau stunduðu saman nám í Borgarholtsskóla á sérnámsbraut, eða í rúm 25 ár. Að námi loknu stofnuðu þau með leiklistarkennara sínum, Guðlaugu Maríu Bjarnadóttur, leikhóp og skömmu síðar bættist Guðný María Jónsdóttir við sem kennari.
Hópurinn fékk fljótlega skjól og vinnuaðstöðu í IÐNÓ og hefur starfað þar æ síðan. Markmið hópsins var að halda áfram að skemmta sér og læra gegnum leiklist og í leiðinni að semja og spinna sýningar.
Efnistök verka hafa verið allt frá försum upp í verk með samfélagsádeilu. Tjarnarleikhópur mun flytja nýtt frumsamið leikverk á hátíðinni 2025, í Iðnó sunnudaginn 2. nóvember.