Um inngildingu í Listum

Um inngildingu í Listum,

frá stjórn og stjórnendum Listar án landamæra

List án landamæra
List án landamæra hefur barist fyrir jafnrétti í íslenskum listheimi síðan 2003.

Hátíðin hefur í 20 ár unnið að inngildingu í listum og er tilgangur hátíðarinnar að auka menningarlegt jafnrétti og fjölbreytni með því að skapa faglegan vettvang og tækifæri fyrir fatlað listafólk.

Mannréttindi
Hátíðin vinnur að því að verða óþörf í íslensku listalífi enda markmiðið að fatlað fólk hafi öll sömu tækifæri og ófatlað í íslenskum listheimi.

Við eigum öll sömu réttindi, það eru mannréttindi. Það eru mannréttindi að vera fullgildir þátttakendur í samfélaginu. Listir og menning eru stór og mikilvægur þáttur í samfélaginu.

Að njóta lista og skapa list er réttur allra
Fatlað fólk eru bæði njótendur lista og menningar sem og höfundar og flytjendur lista og menningar.

Öll eiga rétt á að mennta sig
Aðgangur að menntun er hluti af vandamálinu og mikilvægt er að tryggja aðgengi fatlaðs fólks að listmenntun.
Listmenntun og menntun er mikilvæg fyrir öll.

Vinnum gegn abelisma
Ableismi er fötlunarfordómar og mismunum gagnvart fötluðu fólki. Við þurfum að þekkja ableisma og vinna gegn honum. Það er margt hæfileikaríkt listafólk á Íslandi sem hefur verið útilokað frá þátttöku í listheiminum, haldið á kantinum. Í öllum listgreinum. Þeim hefur verið skipað á áhugamannabekkinn m.a. á forsendum menntunarleysis í listgreininni sem þau iðka.  

Fagmennska
Fatlað listafólk á rétt á viðurkenningu fyrir faglegt framlag sitt til lista og menninga. Fatlað fólk mætir fordómum og fær ekki sömu tækifæri og ófatlað fólk. Mörg hafa aflað sér mikillar reynslu, þekkingar og færni í sínu fagi og vinna af mikilli fagmennsku, þau eiga skilið virðingu eins og við öll.

Það er ábyrgð mennta- og menningarstofnana að koma til móts við fólk
Mennta- og menningarstofnanir eiga að afla sér þekkingar og þau eiga að veita stuðning og þjónustu sem þarf til þess að öll hafi sama rétt þegar kemur að þátttöku á þeirra vettvangi. Fólk er allskonar, fólk þarf ólíkan stuðning og fólk tjáir sig með ólíkum hætti. Stuðningsþarfir fólks eiga ekki að koma í veg fyrir að þau starfi við listsköpun eða mennti sig í listum.

Ákvarðanataka, völd og birtingarmynd
Fatlað fólk þarf að koma að ákvarðanatöku og stefnumótun í menningarlífinu. Fatlað fólk þarf að koma að öllum þeim ólíku hlutverkum sem eru í lista og menningarlífi. Birtingarmynd fatlaðs fólks á ekki að vera á forsendum ófatlaðra.

Við skorum á íslenskan listheim að vinna markvisst að inngildingu
Við köllum liststofnanir, stjórnendur og stjórnvöld til ábyrgðar. Það er skýlaus ábyrgð liststofnana sem reknar eru með sameiginlegum sjóðum  og stjórnenda þeirra að taka ábyrgð og vinna að inngildingu í samræmi við samfélagslegar skuldbindingar og Sáttmála Sameinuðu Þjóðana um málefni fatlaðs fólks.

Leikhús, listasöfn, listmenntastofnanir, menningarhús, listahátíðir takið ábyrgð. Takið ákvörðun, markið stefnu og vinnið markvisst að inngildingu og gerið það í samráði við fatlað fólk.

Við köllum eftir stuðning listafólks og hagsmunasamtök listafólks
Við köllum eftir stuðningi listafólks og hagsmunasamtaka listafólks við það að koma á raunverulegu jafnrétti og inngildingu.

Þekkingin er til staðar - Hlustið og lærið!
Það er mikil þekking til staðar. Fatlað fólk hefur miðlað þeirri þekkingu lengi en það hefur ekki verið hlustað. Nú er tækifæri til að hlusta og læra.
Hér er listi yfir  fjölmörg félög sem geta miðlað þekkingu og reynslu (listinn er ekki tæmandi).

List án landamæra

Átak - félag fólks með þroskahömlun

Landssamtökin Þroskahjálp

Öryrkjabandalag Íslands

Einhverfusamtökin

Marglitur Mars

Rec Arts Reykjavík

Tabú

Félag heyrnalausra

Sjálfsbjörg

Blindrafélagið

Tjarnarleikhópurinn

Halaleikhópurinn

Leikhópurinn Perlan

og mörg fleiri!

 

Listirnar eru afl til breytinga
Listirnar eru leiðarljós í samfélaginu, listirnar eru framsækið afl og í listunum er þekking og verkkunnáttan til staðar til þess að finna leiðir. Í listunum er frelsið og hugrekkið. Frelsið og hugrekkið er inngildandi og listirnar í eðli sínu eru inngildandi. Listin sjálf er landamæralaus við þurfum að sameinast um það að taka niður múra og girðingar.

 


Aðildarfélög í stjórn hátíðarinnar eru: Fjölmennt, Átak, Hitt húsið, Landssamtökin Þroskahjálp, Öryrkjabandalag Íslands og Bandalag íslenskra listamanna. 

Fulltrúar þessara félaga í stjórn hátíðarinnar 2022 - 2023 eru:

  • Margrét Pétursdóttir, Bandalag íslenskra listamanna - formaður stjórnar

  • Steinunn Guðný Ágústsdóttir, Fjölmennt

  • Margrét M. Norðdahl, Þroskahjálp

  • Haukur Guðmundsson, Átak – félag fólks með þroskahömlun

  • Sunnefa Gerhardsdóttir, Átak – félag fólks með þroskahömlun

  • Guðríður Ólafs- og Ólafíudóttir, Öryrkjabandalag Íslands

  • Ásta Sóley Haraldsdóttir, Hitt húsið

List án landamæra