Guðrún Lára Aradóttir

 
 
Guðrún Lára Aradóttir | ljósmynd: Pétur Thomsen

Guðrún Lára Aradóttir | ljósmynd: Pétur Thomsen

Guðrún Lára Aradóttir fæddist árið 1951. Guðrún Lára gekk í Brúarlandsskóla í Mosfellsbæ, Höfðaskóla í Reykjavík og lauk tveggja ára námi í Húsmæðraskólanum að Staðafelli. Hún hefur auk þess sótt mörg námskeið á vegum Fjölmenntar á Selfossi. Guðrún Lára hefur unnið lengst af hjá Styrktarfélaginu Ási og þá mest á saumastofunni. Guðrún Lára flutti til Sólheima í Grímsnesi fyrir um 15 árum og hefur starfað þar síðan.  Á Sólheimum hefur hún starfað í vefstofu, leirgerð, kertagerð og smíðastofu. Guðrún Lára hefur tekið þátt í leikfélagi Sólheima og sýnt með því m.a. í Þjóðleikhúsinu og í Madrid á Spáni. Þá hefur hún verið í Sólheimakórnum, bjöllukór Sólheima og stundað tónlistarnám á Sólheimum.

Guðrún Lára hefur sýnt útsaumsmyndir, leirverk og verk unnin í tré á fjölda samsýninga á Sólheimum Hún hefur einnig tekið þátt í sýningum á vegum Listar án landamæra og átt þar verk á Ráðhússýningum listahátíðarinnar, sýnt útsaumsverk á samsýningunni Grösugir strigar í Þjóðminjasafni Íslands 2013. Árið 2014 sýndi hún á samsýningunni af Hjartans list í Gerðubergi. Guðrún Lára vinnur viðfangsefni sín iðulega fyrst út frá teikningum. Hún vinnur fígúratíft og býr yfir einföldum, fallegum persónulegum stíl. Hún saumar út eigin teikningar og myndar þekjandi útsaumur hennar oft fallega lifandi áferð á striganum.

Guðrún Lára mun sýna þrívíð textílverk á List án landamæra 2019