Hanný María Haraldsdóttir

 
 
Hanný María Haraldsdóttir | ljósmynd: Pétur Thomsen

Hanný María Haraldsdóttir | ljósmynd: Pétur Thomsen

Hanný María Haraldsdóttir fæddist árið 1950 í Þýskalandi en flutti 5 ára gömul til Íslands. Hanný María gekk í Laugarnesskóla og Höfðaskóla í Reykjavík. Hún flutti ung til Sólheima í Grímsnesi og hefur búið og starfað þar í mörg ár. Hanný María hefur tekið virkan þátt í öllu félagslífi á Sólheimum, hún hefur tekið þátt í fjölda leiksýninga á vegum Leikfélags Sólheima m.a. í Borgarleikhúsinu, Þjóðleikhúsinu og á Madrid á Spáni. Þá hefur hún einnig verið í Sólheimakórnum og bjöllukór Sólheima og stundað tónlistarnám á Sólheimum. Hanný María hefur sótt mörg námskeið hjá fjölmennt á Selfossi m.a. í myndlist og tónlist.

Hanný María hefur unnið á öllum vinnustofum Sólheima, listasmiðju, leirgerð, vefstofu, kertagerð og smíðastofu.Hún hefur átt listaverk á fjölda samsýninga á vegum vinnustofanna á Sólheimum og m.a. á sýningunni Af hjartans list í Gerðubergi 2014. Hanný María hefur ákveðinn persónulegan stíl og leitar í að vinna ítrekað út frá sama viðfangsefni. Viðfangsefni hennar eru oftast svanir eða hús. Hanný teiknar og skrifar töluvert af afmælis- og heillaskeytum sem hún gefur samferðarfólki sínu, en það mætti segja að skeytin komi frá sama grunni og myndlistin hennar. 

Á List án landamæra 2019 mun Hanný sýna svanaskúlptúra, nánast heilt svanavatn.