Lára Lilja Gunnarsdóttir

 
 
Lára Lilja Gunnarsdóttir | ljósmynd: Owen Fiene

Lára Lilja Gunnarsdóttir | ljósmynd: Owen Fiene

Lára Lilja Gunnarsdóttir er afkastamikill listamaður sem vinnur þvert á miðla. Hún málar, teiknar og býr til skúlptúra úr ull, tré og plasti. Verk Láru Lilju einkennast af djörfu og óvæntu litavali en hún hefur einstaka næmni fyrir litasamsetningum. Í verkum hennar má oftar en ekki sjá áferðarmikil lög af málningu, en hvert þeirra eignast sjálfstætt líf vegna þykktar sinnar þó um sama lit sé að ræða. Lára Lilja vinnur myndirnar sínar gjarnan á trönum og vinnur þær frá öllum hliðum. Hún snýr myndinni reglulega og því er ekki alltaf skýrt á hvaða veg myndin snýr fyrr en hún er fullkláruð. Það er unun að fylgjast með sköpun Láru Lilju en hún vinnur af krafti og orku, sem glöggt má sjá í verkum hennar.


Lára Lilja fæddist 9. október 1995 í Örebro í Svíþjóð. Hún stundaði nám í Safamýrarskóla (nú Klettaskóli) og Fjölbrautaskólanum við Ármúla og sótti myndlistartíma í báðum skólum. Þar kviknaði áhugi hennar á myndlistinni. Lára Lilja hefur sótt vinnustofu hjá Myndlistarskóla Reykjavíkur sl. þrjú ár og tekið þátt í samsýningum á þeirra vegum. Þá var hún með einkasýningu í Gallery Port á List án landamæra vorið 2018. 


Lára Lilja mun sýna málverk og vafningsskúlptúra á List án landamæra 2019. Að auki vinna Halldóra Sigríður Bjarnadóttir og Ýr Jóhannsdóttir textílverk sem unnin eru útfrá málverkum hennar.