Sýningar og viðburðir 2025
Samflot í litheima — Samsýning í Gerðubergi, 11. október 2025
Sýning Listar án landamæra sameinar verk listafólks, sem hvert á sinn hátt kannar víddir og möguleika litrófsins í ólíkum miðlum. Gestum er boðið að fljóta með inn í litaveröld þar sem abstrakt og fígúratíft mætast, kímni fléttast við kyrrð og furður leynast í hversdagsleika.
Litir segja sögu án orða, þeir eru orkugjafar sem ferðast um taugakerfið og hver tónn hefur sína merkingu. Sum verk kalla strax til okkar með skörpum, björtum tónum – á meðan önnur bjóða til hægara samtals og leitandi íhugunar. Í samflotinu skynjum við og skiljum ótal sögur, tilfinningar og drauma, sem eru í senn persónulegar og sameiginlegar.
Sýnendur:
Berglind Hrafnkelsdóttir
Berglind er fædd í Reykjavík 1976. Hún ólst upp á Snjallsteinshöfða í Landsveit og á Selfossi.
Berglind er mjög listræn og hefur skapað með sér fallegan myndheim með ævintýrablæ.
Hún segir sögur í myndum sínum, blandar saman stórum sem litlum fígúrum, húsum, fjöllum, dýrum, blómum og fuglum.
Þegar hún sækir sér fyrirmyndir í blöð eða bækur verða til skemmtilegar eftirmyndir sem bera sterk höfundareinkenni og úr verður nýr ríkulegur myndheimur sem öðlast sjálfstæði frá upphaflegri fyrirmynd.
Berglind hefur búið á Sólheimum frá árinu 2018 og þar hafa listrænir hæfileikar hennar blómstrað.
Birkir Sigurðsson
Birkir Sigurðsson
Birkir stundaði diplómanám í myndlist við Myndlistaskóla Reykjavíkur og hefur sótt námskeið í listum frá því hann var barn. Hann hefur sýnt verk sín á Íslandi, í Svíþjóð, Bretlandi og Rússlandi. Hann hefur oft tekið þátt í sýningum Listar án landamæra og er nú þátttakandi í námskeiðum hjá Listvinnzlunni.
Birkir vinnur með marga miðla; ljósmyndir, videóverk, blandaða tækni, myndbönd, gjörninga og stundum teikningar. Vídeóverkið hans „Life like color“ er frá árinu 2018 og hefur meðal annars verið sýnt á Nýlistasafninu í Stokkhólmi.