Samflot í litheima

 
 

Samflot í litheima — Samsýning í Gerðubergi, 11. október - 15. nóvember 2025

Sýning Listar án landamæra sameinar verk listafólks, sem hvert á sinn hátt kannar víddir og möguleika litrófsins í ólíkum miðlum. Gestum er boðið að fljóta með inn í litaveröld þar sem abstrakt og fígúratíft mætast, kímni fléttast við kyrrð og furður leynast í hversdagsleika. 

Litir segja sögu án orða, þeir eru orkugjafar sem ferðast um taugakerfið og hver tónn hefur sína merkingu. Sum verk kalla strax til okkar með skörpum, björtum tónum – á meðan önnur bjóða til hægara samtals og leitandi íhugunar. Í samflotinu skynjum við og skiljum ótal sögur, tilfinningar og drauma, sem eru í senn persónulegar og sameiginlegar.

 

Sýnendur:

Berglind Hrafnkelsdóttir

Berglind Hrafnkelsdóttir

Berglind er fædd í Reykjavík 1976. Hún ólst upp á Snjallsteinshöfða í Landsveit og á Selfossi.
Berglind er mjög listræn og hefur skapað með sér fallegan myndheim með ævintýrablæ.
Hún segir sögur í myndum sínum, blandar saman stórum sem litlum fígúrum, húsum, fjöllum, dýrum, blómum og fuglum.

Þegar hún sækir sér fyrirmyndir í blöð eða bækur verða til skemmtilegar eftirmyndir sem bera sterk höfundareinkenni og úr verður nýr ríkulegur myndheimur sem öðlast sjálfstæði frá upphaflegri fyrirmynd.
Berglind hefur búið á Sólheimum frá árinu 2018 og þar hafa listrænir hæfileikar hennar blómstrað.

 

Lilja Dögg Birgisdóttir

Lilja Dögg Birgisdóttir

Lilja Dögg Birgisdóttir lauk eins árs diplómanámi í myndlist frá Myndlistaskólanum í Reykjavík vorið 2024.  Hún hefur sótt fjölmörg námskeið í myndlist hjá Fjölmennt, Listvinnzlunni og Myndlistaskólanum í Reykjavík og tekið þátt í nokkrum samsýningum.

Í verkum Lilju mætast birta og gleði í leikandi samhljómi. Ljósir, skærir tónar flæða yfir flötinn og hver litur virðist brosa og hvetja hinn næsta til að lifna við. Persónurnar sem birtast eru bæði brosandi og feimnar, eins og þær standi á mörkum draums og veruleika. Í þessum heimi ríkir glettni, sem er mjúk og minnir á barnslega undrun.

Fyrir Lilju Dögg er málverkið ekki aðeins strigi og litir- heldur lifandi tungumál, fullt af brosum, hugarflugi og leiftrandi húmor. Litirnir spretta fram með barnslegri forvitni, án hræðslu við að gleðjast eða brosa út í heiminn. Þannig málar hún með gleði, gáska og sál sem brosir í litum.

 

Guðlaug Elísabet Jónatansdóttir

Guðlaug Elísabet Jónatansdóttir

Guðlaug er fædd árið 1950 og gekk í skóla bæði í Brautarholti að Skeiðum og í Vestmannaeyjum. Guðlaug hefur búið og starfað á Sólheimum í Grímsnesi í fjöldamörg ár. Hún hefur sótt mörg námskeið hjá Fjölmennt á Selfossi og stundað tónlistarnám á Sólheimum. Guðlaug hefur átt verk á mörgum samsýningum vinnustofa Sólheima. Hún hefur tekið þátt í sýningum á vegum Listar án landamæra.

Í verkum sínum hleður Guðlaug gjarnan upp litum og formum. Teikningarnar eru ekki eingöngu hlaðnar ríkulegu litaflæði heldur verða oft til hús með óteljandi gluggum sem jafnvel eru umkringd garði með óteljandi blómum eða trjám. Guðlaug vinnur í miklu flæði og oft verður til eins konar fylling í litum og sögusköpun, allt mjög ríkulegt.

 

Garðar Reynisson

Garðar Reynisson býr og starfar í Reykjavík, en bernskuslóðir hans á Akranesi skipa stóran sess í lífi hans og listsköpun. Hann sækir námskeið í myndlist hjá Fjölmennt og hefur þróað með sér persónulegan og einlægan stíl sem endurspeglar fjölbreytt áhugamál hans og lífsreynslu.

Garðar hefur tekið þátt í List án landamæra áður og sýnt þar verk sem vakti mikla athygli. Á þessari sýningu sýnir hann verkið Góðan daginn, sem samanstendur af abstrakt verkum unnum úr afgöngum af tré og við sem hann fékk á smíðaverkstæði. Verkin eru máluð í bláum litatónum og endurspegla næmni Garðars fyrir lit, formi og efni — þar sem einfaldur efniviður fær nýtt og myndrænt líf í hans höndum.

Áhugi Garðars á myndlist og matreiðslu tengist í gegnum nákvæmni, sköpunargleði og notalegar athafnir dagsins. Einnig hefur hann mikinn áhuga á hestum, kaffi og teiknimyndasögum.

Í list Garðars mætast daglegt líf og sköpun á einlægan og frumlegan hátt. Með verkum sínum býður hann áhorfendum að staldra við, skoða og heilsa — með einlægu Góðan daginn.


 

Birkir Sigurðsson

Birkir Sigurðsson

Birkir stundaði diplómanám í myndlist við Myndlistaskóla Reykjavíkur og hefur sótt námskeið í listum frá því hann var barn. Hann hefur sýnt verk sín á Íslandi, í Svíþjóð, Bretlandi og Rússlandi. Hann hefur oft tekið þátt í sýningum Listar án landamæra og er nú þátttakandi í námskeiðum hjá Listvinnzlunni.

Birkir vinnur með marga miðla; ljósmyndir, videóverk, blandaða tækni, myndbönd, gjörninga og stundum teikningar. Vídeóverkið hans „Life like color“ er frá árinu 2018 og hefur meðal annars verið sýnt á Nýlistasafninu í Stokkhólmi.

 

Alfreð Geirsson

Alfreð Geirsson

Álfreð vinnur að myndlist sinni á Heimaey, vinnu- og hæfingastöð í Vestmannaeyjum. Alfreð vinnur gjarnan með sama mótífið í litríkum tússteikningum og olíupastelkrít. Myndirnar eru abstrakt en í nokkrum má sjá bregða fyrir litlu húsi sem stendur í litríkum brimsjó.

Alfreð á bæði myndir á sýningunni og einn af skúlptúrunum frá listhópnum Visku frá Vestmannaeyjum.

 

Erla Björk var valin listamanneskja hátíðarinnar árið 2016

Erla Björk Sigmundsdóttir

Erla Björk fæddist árið 1973 og býr og starfar á Sólheimum í Grímsnesi. Hún vinnur markvisst að list sinni á vefstofu Sólheima og hefur gert það frá árinu 2010. Útsaumsverk hennar njóta athygli og hrifningar og hefur henni verið boðið að taka þátt í fjölmörgum sýningum, meðal annars á listahátíðinni List án landamæra í Þjóðminjasafninu og í Norræna húsinu, ásamt því að verk hennar hafa prýtt dagatal Þroskahjálpar sem ár hvert fær valinkunna listamenn til liðs við sig. Verk Erlu endurspegla kraftinn sem í henni býr, hún tjáir sig í ólíkum formum og listsköpun hennar býr yfir sterkum persónulegum stíl. Í verkum sínum hleður Erla garninu upp beggja vegna strigans og í honum, og vekur það furðu áhorfenda hvernig hún fer að því að koma nálinni og spottanum í gegnum hnausþykk efnin. Verk hennar eru annað hvort fígúratíf eða óhlutbundin formgerð, en ætíð einlæg, kraftmikil, tjáningarík og fögur. Erla var listamanneskja Listar án landamæra árið 2016.

 

Gunnlaugur Ingi Ingimarsson

Gunnlaugur Ingi Ingimarsson, eða Gulli, eins og flestir kalla hann fluttist á Sólheima árið 2018. Hann sýndi strax mikinn áhuga á sinna ábyrgðahlutverki í samfélaginu. Honum var boðið að taka við nytjamarkaðinum sem hafði farið af stað í húsnæði þar sem Verslunin Vala var áður. Þar opnaði hann einnig bókabúð sem hét Bókabúð Gulla.

 

Dísa býr og starfar á Sólheimum og er fjölhæf listakona sem ásamt listinni starfar með Leikfélagi Sólheima sem setur upp leiksýningar þar á hverju ári.

 

Rósa Marta Gunnarsdóttir

Rósa Marta Gunnarsdóttir

Rósa er fædd árið 1959 í Reykjavík. Hún er sjálflærð í myndlist en hún lærði klæðskerasaum í Gautaborg í Svíþjóð.

Þetta er fyrsta myndlistarsýning Rósu en hún byrjaði fyrst

að teikna og mála í maí 2024. Síðan þá hefur hún varla gert annað og á orðið mikið safn af teikningum og málverkum. Hún hefur verið að prófa sig áfram með ýmsa tækni og uppgötva eigin stíl, en teikningar hennar og andlitsmyndir hafa sterkan karakter og sérstök höfundareinkenni. Á sýningunni eru bæði abstrakt málverk eftir Rósu og teikningar.

 

Arna María Andrésdóttir

Arna er fædd 1983 og hefur unnið og búið á Sólheimum í átta ár. Hún hefur verið að vinna myndir með akrýlmálningu, þar sem gjarnan koma fyrir regnbogar og landslag í sterkum litum.