Það verður fjör og fjölbreytni á dagskrá Listar án landamæra í Iðnó sunnudaginn 2. nóvember!
Meðal annars koma fram:
Tjarnarleikhópur — listhópur hátíðarinnar 2025
Söngleikurinn sem ekki má nefna
Félagar í Tjarnarleikhópi hafa flest starfað saman að leiklist frá því þau stunduðu saman nám í Borgarholtsskóla á sérnámsbraut, eða í rúm 25 ár. Að námi loknu stofnuðu þau leikhópinn með leiklistarkennara sínum, Guðlaugu Maríu Bjarnadóttur og skömmu síðar bættist Guðný María Jónsdóttir við sem kennari. Hópurinn fékk fljótlega skjól og vinnuaðstöðu í IÐNÓ og hefur starfað þar æ síðan. Markmið hópsins var að halda áfram að skemmta sér og læra gegnum leiklist og í leiðinni að semja og spinna sýningar. Á dagskrá verður nýjasta leikverk þeirra: Söngleikurinn sem má ekki nefna.
Kórinn BjartSýni — hvatningarverðlaun listhóps 2025
Kórinn var stofnaður í febrúar á þessu ári og er að mestu skipaður söngfólki í Blindrafélaginu. Stjórnendur eru Stefan Sand og Arnhildur Valgarðsdóttir. Þrátt fyrir stutta tilveru hefur kórinn þegar komið nokkrum sinnum fram, meðal annars á tvennum tónleikum í Hörpu. Bjartsýni mun flytja nokkur vel valin lög.
SIgurlaug Sara Jónsdóttir — hvatningarverðlaun 2025
Sigurlaug Sara er tónskáld og flytjandi. Hún hefur lagt stund á tónsköpun hjá Fjölmennt og sýnt þar mikla sköpunargáfu við að setja tónverk sín yfir á stafrænt form. Sigurlaug er með grunn í píanói og hefur verið að færa út kvíarnar með tilraunamennsku á hljómborði og í upptökum. Hún mun flytja nokkur frumsamin tónverk en hún hefur einnig samið texta og ljóð við sum þeirra.
Dagbjört Andrésdóttir er klassískt lærð söngkona og mun flytja nokkur einsöngslög á tónleikunum í Iðnó. Dagbjört kemur einnig fram með kórnum BjartSýni, en hún átti frumkvæði að stofnun kórsins. Dagbjört lauk burtfararprófi frá Söngskóla Sigurðar Demetz vorið 2023, undir leiðsögn Sigrúnar Hjálmtýsdóttur (Diddúar). Í náminu söng hún mörg þekkt sópranhlutverk óperubókmenntanna.
Dagskránni lýkur með DJ og dansi — Ókeypis aðgangur og öll velkomin!
Nánari dagskrá auglýst síðar