Óskar Theódórsson er heiðurslistamaður Listar án landamæra 2025
Hann opnar einkasýningu sína í Gallerí Fold, laugardaginn 18. október nk. og ber sýningin heitið KONUR.
Óskar hefur stundað málaralistina í rúm 40 ár og er enn að mennta sig í myndlistinni. Gömlu meistararnir, Vincent Van Gogh, Paul Gauguin og Sigurður Eyþórsson eru hans helstu fyrirmyndir en konur og rómantík eru hans helsti innblástur.
Sýningin ber nafn með rentu, því megin viðfang Óskars í listinni hafa verið konur. Myndir hans af konum telja í þúsundavís. Þær sýna karakter kvennanna. Myndirnar eru iðulega unnar með olíupastel litum en einnig hefur hann unnið með vatnslit og hefur nýlega byrjað að gera einstakar myndir með akrýlmálningartússpenna. Litirnir í myndunum tákna tilbrigðin í lífinu og lýsa oft áhrifamiklum þáttum og innri og ytri fegurð.
Óskar elskar að ferðast og hefur ferðast víða. Ítalía og Frakkland eru í miklu uppáhaldi en á ferðalögum heilla hann helst myndlistasöfn og plötubúðir. Hann hlustar mikið á tónlist og er alæta á tónlist.
Óskar hefur haldið yfir 30 sýningar, nokkrar þeirra hafa verið á vegum Listar án landamæra og nú síðast tók hann þátt í sýningunni SÖGUR sem var á dagskrá menningar, fræða- og listahátíðarinnar Uppskeru árið 2024.
Verk eftir Óskar Theódórsson