Elfa Björk Jónsdóttir - Listamaður Listar án landamæra 2022!

Listamaður listar án landamæra 2022

Elfa Björk Jónsdóttir!

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri Reykjavíkur veitti Elfu Björk Jónsdóttur viðurkenninguna Listamaður Listar án landamæra 2022 við hátíðlega athöfn í Ráðhúsi Reykjavíkur þann 3. maí. Sunna Dögg Ágústsdóttir verkefnastjóri Ungmennaráðs Þroskahjálpar flutti ræðu um mikilvægi menningar í jafnréttisbaráttu og Haraldur Þorleifsson talaði um aðgengismál og sagði frá verkefninu Römpum upp Reykjavík. Jón Hlöðver Loftsson og Runólfur Sæmundsson, nemendur Fjölmennt léku á píanó. Aldís Arnardóttir, forstöðumaður Hafnarborgar, var á svæðinu en Elfa Björk verður einmitt með einkasýningu þar á hátíðinni í haust!

List án landamæra 2022 mun eiga sér stað frá 15.-30. október

Við hlökkum til að deila með ykkur magnaða myndheim Elfu Bjarkar, til hamingju með nafnbótina Elfa!


Um Elfu Björk

Elfa Björk Jónsdóttir er hæfileikarík listakona og má segja að myndheimur hennar byggist á abstrakt grunni og skapast oft skemmtilegt samspil formræmu og fígúratífs þegar hún sæki sér fígúratífar fyrirmyndir ýmist úr umhverfinu, náttúrulífs bókum eða úr listasögunni. Þegar hún skapar listaverk innblásin af myndum í bókum eða öðrum listaverkum að þá má segja að hún færi myndefnið yfir í sitt sterka einkennandi form í línum litum og formgerð sem birtist að hluta í uppskiptingu myndflatarins. Elfa Björk er ákaflega vinnusöm og með sterkan hreinan og ákveðinn stíl.

Elfa Björk fékk fyrst tilsögn í myndlist þegar Alda Ármanna Sveinsdóttir, myndlistarkona kenndi myndlist í Skálatúnsheimilinu í byrjun árs 1972 en þá var Elfa Björk aðeins 10 ára. Síðan þá hefur Elfa Björk fengið tilsögn í myndlist á námskeiðum hjá Öldu Ármönnu í Reykjavík, hjá Margréti Long, myndlistarkennara á Selfossi og verið á glerlistanámskeiði hjá Dagnýju Magnúsdóttur í glerlistasmiðjunni Hendur í Höfn í Þorlákshöfn. Árið 2019 flutti Elfa Björk til Sólheima í Grímsnesi og hefur stundað þar daglega markvissa listsköpun af kappi á öllum vinnustofum Sólheima. Mest hefur hún þó unnið myndlist í listasmiðjunni með leiðsögn Ólafs Má Guðmundssonar myndlistarkennara og fagstjóra listasmiðju Sólheima.


List er jafnrétti

Ræða Sunnu Daggar á athöfninni

Ég heiti Sunna Dögg Ágústsdóttir, ég er verkefnastjóri ungmennaráðs Þroskahjálpar. Ég vil byrja á því að hrósa öllu frábæru listamönnunum sem voru tilnefndir, þið hafið öll skapað frábær verk og sýnt að fatlað fólk sé alls ekki síðri listamenn en ófatlað fólk. Við búum þó því miður í samfélagi sem ber mikla fordóma í garð fatlaðs fólks, sem gleymir oft okkar mannréttindum, ásamt okkar dugnaði og greind. Fyrir mér er list ein af bestu leiðunum til þess að koma okkar mannréttindabaráttu á framfæri og útskýra hana á hátt sem aðrir skilja. List sameinar okkur líka sem manneskjur og fær okkur til að sjá heiminn með augum annara. List er jafnrétti. Það geta allir notað hana til að tjá sig, sama hvernig maður er á litinn, hverju maður trúir, hvar maður býr o.s.frv. List er tjáning og það er ákveðin fegurð í heimi þar sem allir geta talað.


Stjórn og starfsfólk Listar án landamæra þakkar öllum stuðnings og styrktarðaðilum en ekki síst öllum þeim sem tilnefndu listafólk. Það bárust 10 tilnefningar og valið er aldrei auðvelt. Í valnefnd 2022 sátu:

  • Halldór Ásgeirsson, fyrir hönd Bandalags íslenskra listamanna

  • Þórunn Hannesdóttir, fyrir hönd Hönnunarmiðstöðvar

  • Steinar Svan Birgisson, listamaður hátíðarinnar 2022

  • Helga Matthildur Viðarsdóttir, listamaður hátíðarinnar 2021

  • Jóhanna Ásgeirsdóttir, listrænn stjórnandi Listar án landamæra

  • Davíð Freyr Þórunnarson, framkvæmdastjóri Listar án landamæra



List án landamæra