Til minningar um Ágústu Erlu Þorvaldsdóttur

List án landamæra 2018_Kjarvalsstaðir.jpg

ÁGÚSTA ERLA ÞORVALDSDÓTTIR formaður Átaks, félags fólks með þroskahömlun, varaformaður Landssamtakanna Þroskahjálpar og stjórnarkona í stjórn Listar án landamæra lést á Landspítalanum 23. ágúst síðastliðinn.

Ágústa var stjórnarmeðlimur í stjórn Listar án landamæra fyrir hönd Átaks, frá árinu 2018. 

Hún sýndi með stjórnarþátttöku sinni áhuga og trú á skapandi eiginleikum manneskjunnar og veitti af hugmyndaauðgi sinni, stuðningi og hlýju inn í listirnar. 
Við, núverandi og fyrrverandi stjórn og stjórnandi hátíðarinnar, listafólk og annað samstarfsfólk hjá hátíðinni þökkum fyrir hennar mikilvæga framlag til Listar án landmæra og inngildandi listalífs. 

List án landamæra er vettvangur fyrir þann hluta réttindabaráttu fatlaðra er lýtur að rétti til og eflingar listnáms og listsköpunar, aðgengis að menningu og listum, auk auðgunar andans fyrir skapendur og njótendur. 
Ágústa áttaði sig vel á slagkraftinum sem vettvangur á borð við List án landamæra getur skapað og studdi vel við að ná markmiðum hátíðarinnar sem stjórnarmeðlimur.

Ágústa var ötul í hagsmunabaráttu fólks með þroskahömlun, meðal annars í störfum sínum fyrir Átak, þar sem hún var stofnfélagi og gegndi þar ýmsum trúnaðarstörfum, og Landssamtökin Þroskahjálp en hún var kosin varaformaður samtakana árið 2019. Hún nálgaðist baráttuna á þeim vettvangi og í eigin lífi, með jákvæðni og bjartsýni að leiðarljósi og blæs okkur sem eftir stöndum áfram anda í brjóst. 


Með virðingu, þakklæti, hlýju og söknuði minnumst við í stjórn Listar án landamæra Ágústu Erlu Þorvaldsdóttur okkar sem mikilsmetnum félaga og sendum ástvinum hennar innilegar samúðarkveðjur.

Á meðfylgjandi ljósmynd má sjá Ágústu Erlu lengst til hægri. Myndin er tekin á Kjarvalsstöðum árið 2018 þegar Aron Kale var valinn listamaður hátíðarinnar það árið. Með Ágústu Erlu og Aron Kale eru fv. Ragnheiður Maísól Sturludóttir, Margrét M. Norðdahl og Helga Gísladóttir, sem þá voru í stjórn hátíðarinnar.