FRÉTTABRÉF - Mars

 

Mars mánuður var heldur betur viðburðaríkur hjá List án landamæra. Listfólk hátíðarinnar var valið, einkasýning Guðjóns Gísla opnaði í Listasafninu á Akureyri og sýningin Brot af annars konar þekkingu kláraðaist í NÝLÓ.

Við heimsóttum Gerðuberg og ákváðum að hafa opið kall og halda sumarsýningu núna í sumar. Ef þú hefur áhuga á að sýna list þína á þeirri sýningu geturðu sent okkur póst á listanlandamaera@gmail.com merkt “opið kall”.


Listafólk 2023, hátíðleg athöfn í Listasafni Íslands

Menningar og viðskiptamálaráðherra, Lilja Dögg Alfreðsdótir, opnaði formlega athöfnina með ávarpi um mikilvægi inngildingar í samfélaginu.

Forseti Íslands, Hr. Guðni Th. Jóhannesson, tilkynnt val á listamanneskju og listhópi Listar án landamæra 2023 og þann heiður hlutu Sindri Ploder og Myndlistarhópur Hlutverkaseturs.

Við sama tækifæri veitti Dagur B. Eggertsson borgarstjóri leikhópnum Perlunni heiðursviðurkenningu Listar án landamæra, en hún var nú veitt í fyrsta sinn, á 20 ára afmæli hátíðarinnar.

Það er einnig ánægjulegt að segja frá því að Listasafn Íslands mun taka þátt í listahátíðinni List án landamæra árið 2024 og mun Kristinn G. Harðarson myndlistarmaður sjá um sýningarstjórn á sýningunni sem opnuð verður í aðalbyggingu safnsins á Fríkirkjuvegi 7 á næsta ári.


Einkasýningin Nýtt af nálinni opnaði í Listasafninu á Akureyri

Guðjón Gísli Kristinsson opnaði einkasýninguna sína Nýtt af nálinni í Listasafninu á Akureyri þann 25. mars. Sýningin mun standa til 13. ágúst. Verkin vöktu mikla lukku og ljóst er að Guðjón Gísli verður ekki verkefnalaus á næstunni því nú hrannast inn pantanir á verkum.

Þetta er í fyrsta sinn sem List án landamæra fer í samstarf við safnið og þakkar hátíðin fyrir frábærar viðtökur og fagnar því að safnið hafi keypt verk í safneign sína eftir bæði Karl Guðmundsson og Guðjón Gísla og eiga því nú verk eftir tvö fatlaða samtímalistamenn.


GÖTUSTRIGI í Gallerí gröf í apríl

Götustriginn mun opna sýningu í gallerí gröf 13.-17. apríl þar sem gestir geta fengið innsýn inn í skapandi ferli hópsins. Sýningin mun standa yfir eina helgi og verður alls konar skemmtilegt í boði.

 
List án landamæra