Takk fyrir árið!

TAKK FYRIR ÁRIÐ

!

TAKK FYRIR ÁRIÐ !

Stórglæsilegur lokaviðburður 20 ára afmælisárs List án landamæra var haldinn á stóra sviði Þjóðleikhússins í gær, á alþjóðadegi fatlaðra, ásamt afhendingu Múrbrjóts Landssamtakana Þroskahjálpar.

Dagskráin var bæði fjölbreytt og lífleg og stjórnað fumlaust af þeim Steinunni Ásu Þorvaldsdóttur og Hallgrími Ólafssyni en það var Guðni Th. Jóhannesson, Forseti Íslands, sem setti tóninn með ræðu sinni við upphaf leikhúsveislunnar. 

Leikhóparnir Fjölleikhúsið og Tjarnarleikhópurinn stigu á stokk með frumsamin verk og heilluðu áhorfendur upp úr skónum með húmor og sviðssjarma. Þær Arna Dís Ólafsdóttir, Glódís Erla Ólafsdóttir og Sandra Björt Pétursdóttir voru heiðraðar sérstaklega á viðburðinum en þær túlkuðu Selmu í leikverkinu Jón Oddur og Jón Bjarni sem sett var upp í Þjóðleikhúsinu fyrir 20 árum, á Evrópuári fatlaðra í leikstjórn Þóhallar Sigurðssonar. 

Lokatóninn sló síðan Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra er hún afhenti þrjá Múrbrjóta fyrir hönd Landssamtakana Þroskhjálpar; þeim Degi Steini Elvu Ómarssyni fyrir baráttu sína gegn hindrunum sem mæta fötluðu fólki, staðalímyndum um fatlað fólk og öráreiti sem það verður fyrir í daglegu lífi, Listvinnzlunni fyrir nýjan skapandi vettvang á sviði inngildingar, menningar, menntunar og lista og síðast en ekki síst þeim Sigfúsi Sveinbirni Svanbergssyni og Agnari Jóni Egilssyni fyrir heimildaleiksýninguna ,,Fúsi, aldur og fyrri störf’’ en það er í fyrsta sinn í sögu íslensks leikhúss að verk sé samið og leikið af manneskju með þroskahömlun.

Til hamingju Múrbrjótar!

Við viljum þakka öllu því frábæra fólki sem lagði lóð á vogarskálarnar til að gera þennan viðburð að veruleika. Allt listafólkið sem glæddi viðburðinn lífi, aðildarfélög List án Landamæra, þá sérstaklega Landssamtökin Þroskahjálp fyrir stuðninginn og Þjóðleikhúsið fyrir vettvang og frábært samstarf á árinu.

Myndir tók Leifur Wilberg Orrason


List án landamæra