LISTAFÓLK HÁTÍÐARINNAR 2025
Til hamingjU!
Listamanneskja hátíðarinnar 2025:
Þórir Gunnarsson — Listapúkinn
Listhópur hátíðarinnar 2025:
Tjarnarleikhópur
Heiðursverðlaun 2025:
Óskar Theódórsson
Hvatningarverðlaun 2025:
Sigurlaug Sara Jónsdóttir
Hvatningarverðlaun listhóps 2025:
Kórinn BjartSýni
Listapúkinn Þórir Gunnarsson á vinnustofu sinni
ÞÓRIR GUNNARSSON
Listamanneskja hátíðarinnar 2025
Þórir er myndlistarmaður og aktívisti sem brennur fyrir því að skapa myndlist. Hann er bæði með vinnustofu í Mosfellsbæ og starfar sem listamaður og ráðgjafi hjá Listvinnzlunni.
Þórir lauk eins árs námi í myndlist við Myndlistaskóla Reykjavíkur árið 2021. Í náminu kannaði hann nýja miðla og þróaði listsköpun sína með ólíkri tækni, aðferðum og hugmyndum. Hann hefur síðan sótt vinnustofur í myndlist, keramík og módelteikningu.
Þórir hefur sótt um og barist fyrir aðgengi fatlaðs fólks að Listaháskóla Íslands. Fyrir þá baráttu hlaut hann viðurkenningu Þroskahjálpar, Múrbrjótinn, árið 2021. Þórður var valinn bæjarlistamaður Mosfellsbæjar árið 2022 og hélt við það tilefni einkasýningu í Listasal Mosfellsbæjar.
Listapúkinn Þórir hefur sýnt verkin sín víða á síðustu árum, bæði á einkasýningum og samsýningum, meðal annars á vegum Listar án landamæra. Á hátíðinni í ár verður Þórir með einkasýningu í Hafnarborg, sem opnar þann 11. október næstkomandi. Við óskum Þóri innilega til hamingju!
Verk eftir Þóri Gunnarsson
TJARNARLEIKHÓPUR
Listhópur hátíðarinnar 2025
Tjarnarleikhópur á sviði
Félagar í Tjarnarleikhópi hafa flest starfað saman að leiklist frá því þau stunduðu saman nám í Borgarholtsskóla á sérnámsbraut, eða í rúm 25 ár. Að námi loknu stofnuðu þau með leiklistarkennara sínum, Guðlaugu Maríu Bjarnadóttur, leikhóp og skömmu síðar bættist Guðný María Jónsdóttir við sem kennari.
Hópurinn fékk fljótlega skjól og vinnuaðstöðu í IÐNÓ og hefur starfað þar æ síðan. Markmið hópsins var að halda áfram að skemmta sér og læra gegnum leiklist og í leiðinni að semja og spinna sýningar.
Efnistök verka hafa verið allt frá försum upp í verk með samfélagsádeilu. Tjarnarleikhópur mun flytja nýtt, frumsamið leikverk á hátíðinni í Iðnó, sunnudaginn 2. nóvember. Nánar auglýst síðar.
ÓSKAR THEÓDÓRSSON
Heiðurslistamanneskja hátíðarinnar 2025
Óskar Theódórsson er heiðurslistamaður Listar án landamæra
Verk eftir Óskar Theódórsson
Óskar hefur stundað málaralistina í rúm 40 ár og er enn að mennta sig í myndlistinni. Gömlu meistararnir, Vincent Van Gogh, Paul Gauguin og Sigurður Eyþórsson eru hans helstu fyrirmyndir en konur og rómantík eru hans helsti innblástur.
Óskar elskar að ferðast og hefur farið víða um lönd. Ítalía og Frakkland eru í miklu uppáhaldi en myndlistasöfn og plötubúðir heilla hann helst á ferðalögum. Óskar hlustar mikið á tónlist og er alæta á tónlist.
Óskar hefur haldið yfir 30 sýningar, þar af nokkrar á vegum Listar án landamæra. Nú síðast tók hann þátt í sýningunni SÖGUR sem var á dagskrá menningar-, fræða- og listahátíðarinnar Uppskeru.
Á hátíð Listar án landamæra í ár, verður Óskar með einkasýninguna KONUR í Gallerí Fold. Sýningin opnar laugardaginn 18. október.
SIGURLAUG SARA JÓNSDÓTTIR
Hvatningarverðlaun Listar án landamæra 2025
Sigurlaug Sara Jónsdóttir
Sigurlaug Sara er tónskáld og flytjandi. Hún hefur lagt stund á tónsköpun hjá Fjölmennt og sýnt þar mikinn áhuga og sköpunargáfu við að setja tónverk sín yfir á stafrænt form. Sigurlaug er með grunn í píanói og hefur verið að færa út kvíarnar með tilraunamennsku á hljómborði og í upptökum.
Hún hefur samið nokkur tónverk og einnig texta og ljóð við sum þeirra. Sigurlaug hefur einnig þróað eigin aðferð við að skrifa upp tónsmíðarnar, eins konar nótnakerfi eða uppdrátt að verkunum.
Sigurlaug kom fram á tónleikum á vegum Fjölmenntar í desember 2024 og lék þar tvö frumsamin verk við mikinn fögnuð áheyrenda. Það voru verkin Frostrigning og Sandtittlingur. Sigurlaug iðkar list sína af elju og áhugasemi og ræktar hæfileika sína á frábæran hátt.
Sigurlaug Sara mun flytja eigin frumsamin verk á hátíðinni í haust, nánar tímasetning auglýst síðar.
Sigurlaug Sara við upptökur
KÓRINN BJARTSÝNI
Hvatningarverðlaun til listhóps 2025
Kórinn BjartSýni var stofnaður í febrúar 2025 fyrir tilstilli Dagbjartar Andrésdóttur söngkonu og meðlims í Blindrafélaginu. Hún hafði samband við þá Stefan Sand og Thomas Hammel hjá Art Across, sem hafa áður staðið fyrir tónlistarverkefnum í samstarfi við heyrnarlaust listafólk.
Kórinn BjartSýni telur nú um 12-15 meðlimi og sífellt fjölgar í hópnum. Þrátt fyrir stutta tilveru hefur kórinn þegar komið nokkrum sinnum fram, meðal annars á tvennum tónleikum í Hörpu. Við stjórnvölinn eru Stefan Sand, tónskáld og stjórnandi og Arnhildur Valgarðsdóttir, píanisti og kórstjóri.
Kórinn BjartSýni er að mestu skipaður félögum úr Blindrafélaginu, en tekur fagnandi á móti öllum sem vilja taka þátt. BjartSýni mun koma fram á hátíðinni þann 2. nóvember nk., í Iðnó. Nánari dagskrá auglýst síðar.
Hátíðin þakkar valnefndinni kærlega fyrir sín störf og sömuleiðis öllum sem sendu inn fjölda góðra tilnefningar í ár.
Í valnefnd sátu:
Jóna Hlíf Halldórsdóttir, formaður Bandalags íslenskra listamanna
Margrét Hrafnsdóttir, formaður Félags íslenskra tónlistarmanna
Högni Egilsson, tónlistarmaður
Elín Sigríður María Ólafsdóttir, listamanneskja hátíðarinnar 2024
Margrét Pétursdóttir, f.h. Fjölleikhússins, listhóps hátíðarinnar 2024
Íris Stefanía Skúladóttir listrænn stjórnandi Listar án landamæra 2013-2017