Nýr framkvæmdastjóri og fleira á döfinni

Davíð Freyr Þórunnarson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri hátíðarinnar

Undirbúningur List án landamæra 2021 er í fullum gangi, stefnt er að glæsilegri dagskrá í lok október og byrjun nóvember, en á næstu vikum verður auglýst eftir tilnefningum í listamann hátíðarinnar sem mun hljóta sérstakan heiðurssess á dagskránni. Fylgist með hér á vefnum og á samfélagsmiðlum!

Skipulagið gengur einkar vel þar sem starfsmönnum hefur fjölgað um einn, í viðbót við listrænan stjórnanda starfar nú framkvæmdastjóri við hátíðina, hann Davíð Freyr Þórunnarson. Davíð hefur mjög fjölbreytta reynslu af menningarstjórnun og -sköpun og kemur inn í starf hátíðarinnar af krafti.

Velkominn til starfa!

 
mynd_david

Davíð Freyr Þórunnarson nam leiklist í Kaupmannahöfn og er með meistaragráðu í menningarstjórnun frá Háskólanum á Bifröst. Undanfarin ár hefur Davíð starfað sem framkvæmdastjóri/framleiðandi hjá mörgum af helstu sviðslistahópum landsins þar sem hann hefur komið að fjölbreyttri flóru sviðslistaverkefna allt frá hugmynd til framkvæmdar. Davíð kom t.a.m. að framleiðslu leikverksins Haukur og Lilja - Opnun sem nýverið var sýnt í Ásmundarsal og hlaut 6 Grimutilnefningar og þar af ein verðlaun á nýafstaðinni Grímuverðlaunahátíð.

Hann hefur einnig gegnt stöðu verkefnastjóra hjá alþjóðlegu listahátíðinni Cycle Music and Art festival, sem kynningarfulltrúi samtímatónlistarhátíðarinnar Myrkir Músíkdagar og er einn af stofnendum menningarframleiðslufyrirtækisins MurMur sem ýtt verður úr vör í lok sumars 2021.


Davíð er einn af stofnmeðlimum sviðslistahópsins 16 elskendur sem er þverfaglegur hópur listamanna sem tekst á við fjölbreytt viðfangsefni þar sem hefðbundin mörk leiksýninga eru máð.  Davíð gegnir nú stöðu framkvæmdastjóra hópsins. 

 
List án landamæra