Nýir tímar hjá List án landamæra

List án landamæra var fyrst haldin á Evrópuári fatlaðra árið 2003 og fagnar því sínu þrettánda afmæli árið 2016. Á þessum tíma hefur hátíðin vaxið og dafnað og fjöldi þátttakenda og gesta hefur aukist með hverju ári, enda mikil þörf fyrir hátíð eins og þessa sem fagnar fjölbreytileika mannlífsins.Hátíðin hefur unnið ötult og markvisst starf við að brjóta niður múra á milli ólíkra samfélagshópa með listina að vopni og hefur sú aðferð skilað góðum árangri. Hátíðin og það listafólk sem hefur tekið þátt í henni hefur hlotið almenna viðurkenningu innan samfélagsins og er nú fastur og sjálfsagður liður í menningarflóru Íslands. Hátíðin hefur jafnframt unnið í samstarfi við ótal menningar og menntastofnanir á landinu sem og komið á samstarfi við erlendar stofnanir og listafólk.Fyrirhugað er að „List án landamæra“ muni á næstu árum taka nokkrum breytingum sem aðstandendur hennar telja eðlilega til að tryggja frekari þróun hátíðarinnar til framtíðar. Árið 2016 er ætlunin að færa hana frá því að vera bundna við fastan tíma að vori og opna þannig fyrir þann möguleika að hægt verði að standa fyrir viðburðum og samstarfi undir merki hátíðarinnar allt árið. Þannig er talið að muni skapast tækifæri á auknu og fjölbreyttara samstarfi milli hátíðarinnar og menningarstofnana, sem oft eru bundnar af þröngum tímaramma í starfsemi sinni. Sem dæmi mætti nefna mögulegt samstarf á þessum grundvelli við Listahátíð í Reykjavík, Hönnunar Mars, þátttaka í Menningarnótt, sem og samstarf við allar helstu listastofnanir ríkis og sveitarfélaga.Helstu markmið þessarra breytinga eru:

  •    Að auka tækifæri fatlaðs listafólks til þátttöku í menningarlífinu allt árið um land allt óháð hvers kyns viðburð eða hátíð um ræðir.
  •    Að kynna og stuðla að fjölbreyttri list með þátttöku í öllum helstu hátíðum og menningarviðburðum á Íslandi og auka þannig á sýnileika list fatlaðs fólks. Þannig verður listsköpun þeirra ekki aðeins hluti af einni ákveðinni hátíð sem haldin er á vissum tíma heldur hefur hún tækifæri á að renna saman við alla helstu menningartengda viðburði landsins.
  •    Að hátíðin geti þjónað sem ráðgjafandi aðili fyrir menningarstofnanir og fatlaða listamenn til að koma list sinni á framfæri og til að vinna að aðgengi og fjölbreytni í menningarlífinu.

 Við vonum að þessar breytingar munu leiða til betri hátíðar. Ef þú hefur athugasemdir eða hugmyndir hafðu þá samband með því að senda okkur póst á listanlandamaera@gmail.com.

ÓflokkaðIris