VIð fögnum opnun einkasýningar Þóris Gunnarssonar, Eldingar, í tilefni af því að Þórir er listamanneskja Listar án landamæra 2025.
Á sýningunni leiðir Þórir Gunnarsson, sem gengur einnig undir listamannsnafninu Listapúkinn, okkur inn í myndheim sem er jafnt persónulegur og býr yfir mikilli leikgleði. Þórir sækir innblástur hvaðanæva úr nærumhverfi sínu – svo sem úr strætó- og hlaupaferðum eða náttúrunni – en Þórir hefur óþrjótandi áhuga á mannlífi og íþróttum, bæði sem ötull stuðningsmaður og iðkandi þar sem hann hefur meðal annars tekið þátt í maraþonhlaupum.
Í verkum Þóris má greina eldmóð og lífsneista sem sprettur af vinnusemi, elju og mikilli sköpunarþörf. Þá vinnur hann einkum með teikningu og vatnsliti, þar sem hann nálgast miðlana af forvitni og innsæi. Teikningar sem verða til á ferðalögum hans í strætó verða jafnframt uppspretta verka sem fanga senur úr daglegu lífi og hið síbreytilega augnablik, þar sem lag eftir lag af efni og hugmyndum skapar nýjan veruleika.
Þórir starfar hjá Listvinnzlunni sem listamaður, ráðgjafi og aðstoðarkennari og hefur lagt áherslu á að auka aðgengi fatlaðs fólks að menningu og listnámi. Fyrir það frumkvöðlastarf hlaut hann Múrbrjót Þroskahjálpar árið 2021. Hann hefur einnig verið útnefndur bæjarlistamaður Mosfellsbæjar og sýnt verk sín víða, meðal annars í Norræna húsinu, Gerðarsafni og í Listasafni Reykjavíkur.
Þórir er ekki aðeins myndlistarmaður heldur einnig menningarfrömuður og tónlistarunnandi sem nýtur þess að kynnast fólki og vera í skapandi samfélagi. Með sýningunni býður hann áhorfendum að finna kraftinn sem knýr hann áfram – lífsgleðina, hreyfinguna, sköpunina og samtalið við aðra – líkt og neisti sem lýstur niður og kveikir nýjar hugmyndir.
– Aðgengi í Hafnarborg er GRÆNT
Aðgengi er gott: skábrautir eru við þröskulda, lyftur á milli hæða, aðgengilegt salerni og blátt bílastæði nálægt húsi.
Aðgangur ókeypis – verið öll velkomin.
---
Opening – Lightning
Saturday October 11th at 3 p.m., we celebrate the opening of Þórir Gunnarsson’s solo exhibition, Lightning, as the featured artist of Art Without Borders 2025.
In this exhibition, Þórir Gunnarsson, also known as Listapúkinn, invites us into a visual world that is both personal and playful. Þórir draws inspiration from all around him – whether from bus rides, nature, or his runs – and he has an inexhaustible passion for sports, both as a devoted fan and marathon runner.
Þórir’s art is full of vitality and spark, shaped by commitment, effort and curiosity. He works extensively with drawing and watercolour, approaching his mediums intuitively. Many works begin as sketches made during bus rides, where his attentive eye captures everyday life and fleeting moments, layering material and ideas into new realities.
Þórir works at Listvinnzlan as an artist, consultant and assistant instructor, emphasising accessibility to culture and art education for people with disabilities. In recognition of this pioneering work, he received the Múrbrjótur award from Þroskahjálp in 2021. He has also been named Artist of the Year by the town of Mosfellsbær and he has exhibited widely, including at the Nordic House, Gerðarsafn and the Reykjavík Art Museum.
Beyond visual art, Þórir is a cultural advocate and music enthusiast who enjoys community and creative exchange. With this exhibition, he invites audiences to feel the force that drives him – joy, movement, creativity and dialogue – like a bolt of lightning that strikes and ignites new ideas.
– Accessibility is GREEN*
Accessibility is good: there are ramps at the thresholds, elevators between floors, an accessible toilet and a blue parking near the building.
Free entry – everyone welcome.